Friday, December 16, 2011

Jólagjafir garðyrkjumannsins



Þá er aðventan gengin í garð, garðurinn er undir snjóþekju.
Ég hef verið að velta fyrir mér hvað garðyrkjumaðurinn í mér myndi vilja í jólagjöf og hér eru nokkrar hugmyndir:

Greinatætari: Þá væri hægt að nýta greinarnar í safnhauginn sem er erfitt ef þær eru heilar.
Safnhaugatunna:  Er með opinn safnhaug en langar til að prufa lokaðan líka.  Mjög mikill munur þegar hægt er að setja heimilisúrganginn á safnhauginn.  Minnkar rusl heilmikið

Góða greinasög:  Alltaf að saga einhverjar greinar og á ekki góða sög.

Smart stígvél  td þessi:
The Wellington Boot1 The Wellington Boot

gúmmískór:


Aerogarden svo ég geti ræktað salat á veturna:

Product Details


mig langar í þessa bók:


A Way to Garden: A Hands-On Primer for Every Season

og þessa:

Íslenskar lækningajurtir


og þessa: Góður matur gott líf: í takt við árstíðirnar

og svo örugglega margt fleira sem ég man ekki í bili.

Gleðileg jól!

Sunday, November 27, 2011

Lavender

Ég er búin að þurrka lavenderinn minn og setja hann í litla poka.  Þá set ég í fataskúffurnar til að gefa góða lykt.  Ég hef lengi haft lavender í skúffunum mínum en hann heldur fatnaði og rúmfötum ferskum.  Þetta er þó fyrsta árið sem ég er sjálfbær á þessu sviði.  Hef alltaf þurft að kaupa hann.  Ég sáði fyrir lavender í vor og hann blómstraði heldur seint.  Ætli ég þurfi ekki að setja hann inn í bílskúr í vetur.  Veit samt ekki hvort ég nenni að standa í því.  Mér hefur ekki enn tekist á láta lavender lifa af veturinn en hef heyrt að sumum hafi tekist það.


Hér er hann í blóma

og kominn í poka, ilmar vel....

Friday, November 25, 2011

Garðurinn minn í nóvember

Hvað er hægt að gera í matjurtagarði í nóvember?  Ég fór út í garð í vikunni og týndi sléttblaða steinselju.  Einnig er töluvert af grænkáli útum allan garð en það fékk leyfi til þess að sá sér.
Mér sýnist Svartyllirinn minn hafa þroskað ber og er enn að mynda blómknúppa. Ég hef samt ekki týnt berin, klasarnir eru ekki mjög margir.

Ber á Svartylli






Blómaklasi á sama runna



Svartyllirinn minn er hálf druslulegur greyið.  Þyrfti smá snyrtingu



Gulræturnar mínar voru hálf misheppnaðar í ár.  Þær síðustu sem ég tók upp um miðjan október voru morknar og ég held að það hafi jafnvel verið í einhverjum þeirra ormar.  

morkin gulrót.  
 Ég setti niður hvítlauk í Garðarshólma síðustu helgina í október.
Þetta er tegundin af hvítlauk sem ég setti niður.  Setti rif úr 3 laukum.
Hér kemur svo mynd af bláu kartöflunum mínum.  Þær eru svolítið flottar en mér finnst rauðar samt alltaf bestar.  Kartöfluuppskeran var mun minni í ár en í fyrr.
Bláar kartöflur

Enn eru að þroskast tómatar í stofunni minni.  Þeir eru svolítið vatnskenndir en það eru líka tómatarnir sem ég kaupi útí búð.

Hvað er svo framundan?  Enn get ég tekið upp grænkál, svo er eftir að gera upp árið.  Fara yfir það sem vel gekk og ekki eins vel.  Svo er bara að fara að skipuleggja sáningu á nýju ári.  Ég ætla að setja upp flúorljós fyrir græðlingana mína.

Monday, October 17, 2011

Svartrætur og Grænkálssnakk

Ég tók upp restina af Svartrótunum í gær í skítakulda og hálfgerðu myrkri.  Í dag sauð ég þær svo og borðaði með steikta fiskinum.  Fyrst er að skræla þær og á meðan þær bíða eftir að komast í pottinn þarf að setja þær í sítrónuvatn því þær gulna fljótt.  Þær eru fallega hvítar á litinn.  Svo sauð ég þær í 10 mínútur í vatni og smjöri.  Setti smá salt á þær.  Þær voru ljúffengar.
Það er dálítið maus að taka þær upp því þær vilja brotna.



Ég tók upp slatta af grænkáli í lok september og var að flýta mér svo mikið að allt fór beint í frystinn án nokkurs undirbúnings.  Í kvöld gerði ég svo grænkálssnakk en uppskriftin kemur frá Þórgunni vinkonu í gegnum krókaleiðir.

Maður blandar saman
1 msk tahini
1 msk tamarisósu
1 msk sítrónusósu
1 hvítlauksrifi
Tekur grænkálið og veltir uppúr þessu og þurrkar svo í ofni við ca 80-100gráður í um klst. Mér finnst þetta ljúffengt og mun gera þetta aftur.

Svo bæti ég við mynd af laumufarþegunum frá Osló.

Týndi eikarakörn á Karl Johan og þetta villiepli  ekki langt frá.  Ætla að sá þessu við fyrsta tækifæri.  

Sunday, October 16, 2011

Eplatrjám plantað


Setti Eplatrén niður fyrsta október.  Fékk hjálp við að setja niður staura og festa víra á þá.  Gróf 50-60 cm djúpar holur sem voru 60 cm á breidd.  Setti smá hænsnaskít í botninn og blandaði vel.  




3 í röð og eru bundin á víra.  Munu verða vanin í svokallað Espalier form.  Nú er ég bara að spá í hvort ég eigi að klippa toppinn af í haust eða næsta vor.  Er ekki viss.
Súrkirsiberjatréð er enn í sínum potti sem ég gróf niður í beð fyrir veturinn.  Ætla að reyna að koma því fyrir við húsvegg.  Geri það væntanlega næsta vor.
Fór í dag í Smálönd og tók upp restina af gulrótunum, svartræturnar og fullt af brokkolíi og steinselju.  Baunirnar voru ónýtar því miður.  Búnar af frjósa og þola það greinilega ekki mjög vel.  Dálítið maus að grafa svartræturnar upp því þær brotna auðveldlega.  Örugglega eitthvað trix sem ég verð að kynna mér ef ég ætla að prufa þær aftur.  Líklega eru þær of hægvaxta fyrir íslenskt veðurfar, voru fremur smáar hjá mér.  Er líka enn að fá tómata.  Þeir eru orðnir minni en í sumar og ekki eins bragðmiklir finnst mér.  Ég er búin að setja fullt af grænkáli í frystinn þvi ég þurfti að taka upp allt kálið mitt og færa kálbeðið þegar ég gróðursetti eplin.
Nú er bara eftir að setja niður hvítlauk og hreinsa arfa (ef ég nenni)
Ég var í Osló um helgina og týndi þar eikarakörn á Karl Johan og einnig villiepli sem ég ætla að prufa að sá að gamni.

Monday, September 26, 2011

Nokkrar haustmyndir úr garðinum

grænkálið sprettur vel
Lavender að springa út

2 toppar að berjast um yfirráð, annar verður að víkja


Svartyllirinn enn að blómstra


Eplatrén í bakgrunni, er að undirbúa gróðursetningu


hindber
berin á svartyllinum eru ekki orðin þroskuð og ná varla þroska fyrir frost

Wednesday, September 21, 2011

Haust

Nú haustar að og ég þurfti að skafa af bílnum í fyrsta skipti í morgun.  Við fórum og tókum upp kartöflur og það er gott að vita af þeim komnum í hús.  Ég geymi þær í bílskúrnum, í myrkvaðri kompu.  Þar sem það er búið að rigna ansi mikið að undanförnu þá var jörðin blaut og það þarf að passa uppá að þær þorni almennilega. 
Síðustu leifarnar af grænmeti í Garðarshólma

Brokkolíið vex enn

Baunagras

Haustlegt um að litast í Smálöndum

Þær bláu voru risahnullungar
Uppskeran af kartöflum á leið í bílinn
Annars er ég búin að vera að taka upp gulrætur, síðustu rauðrófurnar í dag, brokkolí,baunir, steinselju (fullt af henni) og salat.  Einnig vorlauk.  Fékk líka eitt hindber sem ekki náðist á mynd það var borðað svo hratt. 

Af kartöflunum fannst mér þær bláu stæstar, Möndlu voru mjög misjafnar.  Gullauga og Rauðar svipaðar.  Kartöflurnar litu ágætlega út og engin merki um sýkingar.

Næsta ár þarf ég að búa til betri stuðning við baunirnar og helst að forrækta þær svo þær byrji fyrr að gefa af sér.  Þær eru á fullu að blómstra en ég veit að við smá frost þá eru þær búnar. 

Nú er bara eftir að stinga hvítlauknum niður og taka þessar fáu gulrætur upp.  Einnig svartræturnar. 
Svo á ég líka eftir að planta eplatrjánum og þá fer nú garðverkum að fækka og bloggfærslum líka geri ég ráð fyrir. 

Sunday, September 4, 2011

Svartrætur

Ég er aðeins farin að taka upp Svartræturnar mínar.  Er raunar bara að grisja þær en það eiga að vera 10 cm á milli plantna.  Þær eru ekki mjög sverar og erfitt er að ná þeim, þær vilja brotna.  Þarf líklega skóflu og grafa þær upp.  Mér sýnist að það eigi að skræla þær, leggja þær í sítrónuvatn og sjóða svo í 15-20 mínútur og ætla ég að prófa það.  Borða svo með smjöri.

Annars er ég að týna baunir, taka upp gulrætur, rauðrófur, salat, vorlauk, brokkolí og kartöflur sem enn eru fremur smáar og ræfilslegar.

Gerði mér annars vegar gulrótarsafa með epli og hins vegar gulrótar og rauðrófusafa.  Báðir voru mjög góðir.

Brokkolíplönturnar eru enn að gefa af sér en þær líta ekki vel út, stór og mislit blöð.  Ég setti bara hænsnaskít á þær, engan annan áburð.

Ég klippti sólberjarunnana mína hressilega um helgina.  Fann líka pínulitlar sólberjaplöntur undir runnunum sem teknar voru og settar í pott.


Sáði líka fyrir Birki en ég týndi fræ af fallegum birkitrjám í Laugardalnum, þau eru með ljósum beinum stofni.

Brokkolíplönturnar

Hluti af uppskerunni, fennel,gulrætur og rauðrófur

vorlaukur

baunir

svartrætur
 

Sunday, August 28, 2011

Rauður matur

Fékk góðar vinkonur í mat um helgina og þær pöntuðu rauðrófusúpuna sem þær höfðu fengið hjá mér í fyrra.  Hún er virkilega góð, dálítið vel krydduð.  
 Hér kemur uppskriftin sem er úr gestgjafanum upprunalega:



Rauðrófusúpa

1 msk ólífuolía
1 rauðlaukur saxaður
1 og ½ teskeið cummin
350 g rauðrófur bakaðar
½ líter kjúklingasoð
1 dós kókosmjólk
2 msk rifið engifer
½ grænt chili ( notaði rautt currypaste á hnífsoddi)
2 hvítlauksgeirar
Salt og pipar
Limesafi

Laukur og cummin steikt þar til laukur er glær
Allt annað nema limesafi sett útí og soðið í 10 mínútur.  Maukað og smakkað til með limesafa salti og pipar.  




Hélt áfram að týna sólberin.  Týndi í klukkutíma, viktaði ekki en þetta voru einhver kíló.  Það er enn eftir ber en ég held ég muni ekki týna meira í ár.  Þau eru að verða svolítið þreytt.  Var að hugsa um að sjóða saft en einhvernveginn langaði mig ekki í soðin ber og fullt af sykri svo ég pressaði berin í safapressunni, þynnti safann með vatni til helminga og setti smá agavesýróp í. Mjög góður sólberjasafi og fallega rauður líka.  Frysti eitthvað af honum líka. 



Fór uppí Smálönd í kvöld í rigningunni.  Týndi baunir, það er alltaf svolítið gaman því það þarf að rýna svo í baunagrasið áður en maður kemur auga á baunirnar.  Þær fela sig.

Svartrótina þarf ég að grisja, hafa 10 cm á milli plantna. Þarf að grafa þær upp því ekki dugir að toga í grasið. Þær má yfirvetra í garðinum ef þeim er skýlt ef þær verða ekki orðnar passlegar til átu.  

Svartyllirinn blómstrar enn hjá mér.  

Jarðaberin blómstra líka ennþá og enn finnast eitt og eitt ber á stangli. 

Wednesday, August 24, 2011

Baunir

Fyrstu baunirnar eru komnar og er ég búin að bíða spennt eftir þeim.  Þetta eru sykurbaunir en á næsta ári ætla ég að vera með fleiri gerðir.  Nú er bara að krossa fingur og vona að ekki komi næturfrost alveg á næstunni.

Þær eru bæði góðar og fallegar

Þarna standa þær í fullum blóma

Gulræturnar aðeins teknar að gildna

Svartrætur, ætli ég þurfi ekki að fara að grisja þær

sléttblaða steinselja, bjó til mjög gott pestó úr henni 

hrokkin steinselja

vorlaukur

Ég sáði fyrir þessum rauðrófum og koma þær mjög vel út.  
Ég tók upp að auki í kvöld fullt af salati, fennel  og smá brokkolí.  Svo var gert kjúklingasalat.