Tuesday, May 31, 2011

Kartöflur í rigningunni

Við settum niður kartöflur í kvöld. 
6 raðir af kartöflum.
1. röð (næst hliði) Möndlur
2. röð 7 möndlur (næst girðingu) 11 bláar, 6 gullaugu
3. röð gullauga
4. röð rauðar
5. rauðar
6. rauðar´
23-24 kartöflur í röðinni. 
Er með ansi mikinn afgang af útsæði.  Vonandi getur einhver notað það. 

Smálöndin

Ég er búin að vera að rækta í Smálöndunum frá því að þau voru stofnuð árið 2009.  Við erum tvær saman í þessu sem gerir ræktunina margfalt skemmtilegri og svo pössum við garðana hvor fyrir aðra í fríum. 
Nú eru allir á fullu að undirbúa.  Gaman er að labba um og heyra hvað fólk ætlar að rækta.  Í einum garðinum var verið að smíða grind og þar á plast að fara yfir og ætla eigendurnir að rækta kúrbíta. 
Ég ætla að rækta kartöflur: Premium, Rauðar, Bláar og Gullauga.  Ég er búin að setja Premium niður og hinar verða vonandi settar niður í kvöld.  Í kartöflubeðin fór hænsnaskítur og einnig brennisteinn.
Keypti forræktaðar rauðrófur, hnúðkál og brokkolí en plönturnar mínar eru hálf vesælar enn þótt hænsnaskítsteið sé aðeins að hressa þær við.  Allt þetta er komið niður. 
Heilt beð fer undir baunirnar en þær heppnuðust sérlega vel í fyrra.  Ætla að setja niður sykurbaunir.
Ég ætla að sá fyrir gulrótum og rauðrófum.  Er að hugsa að smíða utan um sáðbeðið en á eftir að undirbúa það.
Í allan garðinn fór hænsnaskítur og svo kalk á öll beð nema kartöflubeðin. 
Vandamál í smálöndum hafa verið þjófar bæði tvífættir og fjórfættir en með girðingu leysast þau vonandi. 
Vinnudagur í Smálöndum

Wednesday, May 25, 2011

Vandamál í ræktun

Nú stendur forræktun yfir og gluggakistur fullar af litlum græðlingum.  Það er ekki besti staðurinn fyrir þá þar sem oft verður of heitt og kannski ekki alveg nóg birta.  En maður notar það sem maður hefur og ég bý ekki svo vel enn sem komið er að eiga gróðurhús, það er þó draumurinn.   Kryddin þrífast ágætlega, en brokkolíið  þrífst ekki sem best, blöðin eru gul og það vex illa. Er búin að vökva með Maxicrop áburði.

ósköp vesöl þessi
Ég spurði snillingana í Garðyrkjufélaginu en á síðunni þeirra er hægt að senda inn  spurningar og yfirleitt fær maður mjög greinargóð svör.  Það stóð ekki á svörum í þetta sinn frekar en endra nær.  Hafsteinn áleit að plönturnar skorti að öllum líkindum nitur og ég gæti notað annað hvort tilbúin NPK áburð eða hænsnaskít blönduðum í vatni.  Þá er blandan 1 msk í 1 lítra af vatni og leyfa blöndunni að liggja eina nótt áður en vökvað er með henni.  Þar sem ég reyni eins og ég get að vera lífræn í minni ræktun þá ætla ég að prufa þetta.  Takk Hafsteinn. 

Tuesday, May 24, 2011

Hvítlaukur

Ég keypti mér hvítlauksútsæði í Garðheimum um daginn.  Það er í fyrsta sinn sem ég reyni að rækta hvítlauk og hlakka ég til að takast á við það.  Einhver reynsla er komin á ræktunina hér á landi.  Mjög fróðleg grein er í síðasta garðyrkjuriti um hvítlauk eftir Kristínu Jónsdóttir og Jóhann Róbertsson.  Þau hafa reynt ýmis afbrigði en segja Thermidrome best. 
Hann þarf sólríkan og skjólgóðan stað og léttan og molturíkan jarðveg og gott er að hafa beð upphækkuð.  Hann á að setja niður á haustin og gott er að miða við miðjan september og fram í seinni hluta október.  Setja niður þokkalega stór rif og á rótarendinn að snúa niður.  Hafa um 25-30cm á milli raða og 10-15 cm á milli rifja og er því plantað um 5-8 cm djúpt.  Ágætt getur verið að skýla þeim þegar þeir fara að skjóta upp kollinum, stundum í nóvember en oft ekki fyrr en í febrúar.  Þegar laufin fara að gulna þá er tímabært að taka hann upp, oft svona í ágúst.
( bls 17-20 Garðyrkjuritið  2011)

Þetta er laukurinn sem ég keypti.  Þessi tegund var ekki nefnd í greininni þeirra. 

Tuesday, May 10, 2011

Klipping á Svartylli

Ég er með Svartylli í garðinum mínum sem dafnar vel og vex mikið.  Fyrstu árin kól hann en undanfarin ár hefur hann ekkert kalið.  Hann blómstrar vel og hefur líka þroskað ber.  Ég hef notað blómin til að gera Ylliblómasaft sem er ákaflega góð.  Ég hef ekkert nýtt berin enda hef ég notað mest af blómklösunum í saftina.  Reyndar blómstrar hann tvisvar yfir sumarið.  Hann brotnaði töluvert í vetur og ég hef verið að leita mér upplýsinga um hvernig skuli klippa hann til að forðast þessar löngu og viðkvæmu greinar. 
Mér virðist sem best sé að klippa greinarnar eftir að hann hefur blómstrað svo ekki séu fjarlægðar blómmyndandi greinar.  Líklega best að klippa hann þá á haustin.
Blómknúppur

Hann er ekki mjög fallegur greyið, þarf klippingar við. 

Fyrsti vinnudagur í Garðarshólma


Við fórum uppí garð þann 7.5 og byrjuðum að stinga upp og hreinsa beðin.  Nóg af arfa til að hreinsa.  Veðrið var dásamlegt.  Ég gat ekki séð að fólk væri farið að huga að görðunum sínum.  Næsta skref er að kaupa hænsnaskít og blanda í beðin.  Okkur langar líka til að gera varanleg beð með því að smíða um þau kassa og gera almennilega göngustíga á milli.  Það myndi spara vinnu. 
Í fyrra setti ég kartöflurnar niður þann 17 maí.  Þær eru að spíra og gengur mis vel.  Möndlurnar eru lítið farnar að spíra ennþá. 
Þær plöntur sem eru í forræktun líta misvel út.  Erfitt er að forrækta inni í húsi, hitinn vill verða of mikill og plöntunar teygar og ljótar, en ég er ekki með gróðurhús allavega ekki enn.  Brokkolíið er ekki mjög fallegt og lenti líka í smá þurrki í mestu sólinni í fyrradag. 

Monday, May 2, 2011

Grænkál

Ég var að lesa í bókinni hennar Hildar Hákonardóttur, Ætigarðurinn.  Þar fjallar hún um fyrstu grænku vorsins og nefnir meðal annars að hægt er að nýta grænkál allan veturinn og verður það jafnvel betra eftir að það hefur frosið.  Þá mundi ég eftir því að ég á grænkál útí garði.  Sendi manninn út eftir því og skellti því í fiskréttinn sem ég var að útbúa. 

Komið í eldhúsið...


...og á pönnuna


Grænkál er tvíært.  Setur fræ seinna árið.  Nú er úti í beði hjá mér fullt af litlum grænkálsgræðlingum, sjálfssáðum þar sem ég henti ekki 2-3 grænkálsplöntum í fyrra sem voru á seinna ári.   Stundum er ágætt að vera ekki að taka alltof mikið til í beðunum hjá sér. 

Sunday, May 1, 2011

Jólasnjór

Ég mokaði tröppurnar hjá mér í dag.  Þó er fyrsti maí.  En ræktunarstarfið heldur áfram þrátt fyrir snjóþyngsli. 
Í dag sáði ég fyrir :
Skjaldfléttu.  Fann gömul fræ í ísskápnum sem ég týndi fyrir nokkrum árum síðan.  Sjáum hvort þau spíri.
Dilli.  Draumurinn er að fá dill með nýju kartöflunum en líklega er það borin von þar sem dillið þroskast svo snemma. 
Kirsuberjatómötum.  Týndi fræ úr "bónustómati"
3 tegundum af steinselju. plain leaved,moss curled og giant of italy.  Gömul og ný fræ í bland.  Steinseljan er alveg ómissandi í kryddgarðinn.

Ég priklaði Fennelinu  sem ég las svo um í Matjurtabókinni að vildi helst ekkert umrót.  Hefði betur lesið það fyrr en við sjáum hvað setur. 
Fennel








ósköp ræfilslegar í nýjum pottum







Einnig priklaði ég laukinn. 


Ég hlakka virkilega til að sjá hvernig hann plumar sig.  Ég var með vorlauk í fyrra sem heppnaðist mjög vel.  Ætla að sá honum beint út í ár.  Sá honum þéttar.  Hann er víst fjölær. 
Ég gerði líka uppkast að skipulaginu í matjurtagarðinum:  Mikilvægt er að rækta ekki sömu tegundir oft á sama stað.  Þess vegna geri ég uppdrátt að garðinum og geymi á milli ára. 
Ég er með um 37 fm af garðplássi.  Kartöflurnar taka stæsta plássið.  Gott væri að hvíla alltaf 1 beð en ég tími ekki að missa plássið.

Kartöflurnar eru úti í skúr að spíra.  Ég er með hálft kg af rauðum og gullauga, premium, 1 kg af möndlum (deili væntanlega með vinkonu) og nokkrar bláar.  Mér finnst rauðu lang ljúffengastar en í ár mun ég prufa möndlu og bláar í fyrsta sinn.


Jarðaber er búið að umplanta.  Þær eru komnar í upphækkað beð og búnar að fá yfir sig dúk.  Ætla að fjölga þeim og reyna að gera þeim virkilega gott í sumar.  Hef aldrei fengið sérstaka uppskeru af jarðaberjunum mínum en alltaf verið með þær í pottum hingað til.  Nú ætla ég að prufa beð. 

Svo er bara að bíða eftir sumrinu.