Sunday, August 28, 2011

Rauður matur

Fékk góðar vinkonur í mat um helgina og þær pöntuðu rauðrófusúpuna sem þær höfðu fengið hjá mér í fyrra.  Hún er virkilega góð, dálítið vel krydduð.  
 Hér kemur uppskriftin sem er úr gestgjafanum upprunalega:



Rauðrófusúpa

1 msk ólífuolía
1 rauðlaukur saxaður
1 og ½ teskeið cummin
350 g rauðrófur bakaðar
½ líter kjúklingasoð
1 dós kókosmjólk
2 msk rifið engifer
½ grænt chili ( notaði rautt currypaste á hnífsoddi)
2 hvítlauksgeirar
Salt og pipar
Limesafi

Laukur og cummin steikt þar til laukur er glær
Allt annað nema limesafi sett útí og soðið í 10 mínútur.  Maukað og smakkað til með limesafa salti og pipar.  




Hélt áfram að týna sólberin.  Týndi í klukkutíma, viktaði ekki en þetta voru einhver kíló.  Það er enn eftir ber en ég held ég muni ekki týna meira í ár.  Þau eru að verða svolítið þreytt.  Var að hugsa um að sjóða saft en einhvernveginn langaði mig ekki í soðin ber og fullt af sykri svo ég pressaði berin í safapressunni, þynnti safann með vatni til helminga og setti smá agavesýróp í. Mjög góður sólberjasafi og fallega rauður líka.  Frysti eitthvað af honum líka. 



Fór uppí Smálönd í kvöld í rigningunni.  Týndi baunir, það er alltaf svolítið gaman því það þarf að rýna svo í baunagrasið áður en maður kemur auga á baunirnar.  Þær fela sig.

Svartrótina þarf ég að grisja, hafa 10 cm á milli plantna. Þarf að grafa þær upp því ekki dugir að toga í grasið. Þær má yfirvetra í garðinum ef þeim er skýlt ef þær verða ekki orðnar passlegar til átu.  

Svartyllirinn blómstrar enn hjá mér.  

Jarðaberin blómstra líka ennþá og enn finnast eitt og eitt ber á stangli. 

Wednesday, August 24, 2011

Baunir

Fyrstu baunirnar eru komnar og er ég búin að bíða spennt eftir þeim.  Þetta eru sykurbaunir en á næsta ári ætla ég að vera með fleiri gerðir.  Nú er bara að krossa fingur og vona að ekki komi næturfrost alveg á næstunni.

Þær eru bæði góðar og fallegar

Þarna standa þær í fullum blóma

Gulræturnar aðeins teknar að gildna

Svartrætur, ætli ég þurfi ekki að fara að grisja þær

sléttblaða steinselja, bjó til mjög gott pestó úr henni 

hrokkin steinselja

vorlaukur

Ég sáði fyrir þessum rauðrófum og koma þær mjög vel út.  
Ég tók upp að auki í kvöld fullt af salati, fennel  og smá brokkolí.  Svo var gert kjúklingasalat.

Monday, August 22, 2011

Sólber, nokkrar uppskriftir

Ég er í því að verka sólberin þessa dagana.  Þau sem ekki rata beint uppí munn eða eru notuð í matinn jafn óðum eru hreinsuð og lausfryst til síðari notkunar.  Ég ákvað að pósta nokkrar uppskriftir úr sólberjum.

Ég er búin að gera tvenns konar berjapæ:

Berjapæ úr gestgjafanum:
6 epli skorin í bita (ég notaði lífræn epli og hafði þau með hýði)
1 msk vanillusykur
1/2 dl hlynsýróp
100-150 g sólber (uppskrift segir bláber)

Eplin eru sett í botninn á eldföstu móti, vanillusykri og hlynsýrópi blandað í.  Álpappír breiddur ofaná og bakað í 20 mín við 180 gráður. Bætið berjum við og "crumble"  sett yfir og bakað í 20-30 mín til viðbótar eða þangað til deigið er orðið gyllt.  Berið fram með þeyttum rjóma eða ís.  Það má nota rabarbara í stað  berjanna. 
Næst mun ég bera það fram með grísku hunangsjógúrtinni sjá að neðan.

Crumble
150 g hrásykur
200 g hveiti
200 g smjör skorið í litla teninga
150 g haframjöl
50 g sesamfræ
50 g sólblómafræ
(dálítið stór skammtur af deigi fannst mér)
Blandið öllu saman þar til það er orðið að fínum kögglum.  Kælið. 

Gerði þessa uppskrift líka með blöndu af bláberjum og krækiberjum og fannst hún ekki eins góð þannig, betra að fá aðeins súrt bragð. 

Annað berjapæ kemur úr smiðju himnesku Sollu.

1 bolli kókosmjöl
1 bolli haframúslí (ég læt hjartað segja til um magnið)
¼ bolli spelt
100 g döðlur, smátt saxaðar
50 g möndlur
2-3 msk kókosolía
2 egg
¼ bolli agave-síróp eða hunang
2 bollar sólber

Allt nema eggin og agave-sírópið/hunangið sett í matvinnsluvél og blandað saman þar til það byrjar að klístrast. Þá er eggjum og sírópi bætt út í og þetta á að blandast vel saman. Hellið deiginu í smurt form og stráið sólberjunum yfir. Bakið við 180°C í 15-20 mín. Berið fram með límonukryddaðri grískri jógúrt (2 dl grísk jógúrt, 2 msk hunang, 1 msk fínt rifið limonuhýði. Hrært saman og kælt í smá stund.)

Þessi límónukryddaða jógúrt er mjög gómsæt vægast sagt. Mæli með henni. 

 

Sólberja og chili chutney

3 dl sólber
2 dl kókosmjöl
1 dl döðlur, saxaðar
1 rautt chili-aldin
½ rauðlaukur, saxaður
3 cm biti af ferskri engiferrót
2 límónulauf
5 cm sítrónugras
2 hvítlauksrif
1 tsk salt
Allt sett saman í matvinnsluvél og maukað saman. 

Þetta var ágætt alveg.  Veit ekki hvort ég myndi gera það aftur samt.

Síðan ætla ég að prufa að gera hrásultu þessi er úr Gestgjafanaum. 

1 kg ber
400-500 g sykur
1 msk rotvarnarefni (hugsa að ég sleppi því og frysti hana bara)

Skola ber og þurrka vel. Hellið berjunum, sykri og rotvarnarefni í leirskál og hrærið saman með sleifarskafti.  Hrærið í þessu annað slagið og látið samlagast í 2 sólarhringa.  Heillið í hreinar krukkur og geymið á köldum stað.  Athugið að berin þurfa að vera nýtínd. 


á leiðina í frystinn


Sunday, August 21, 2011

Eplatré og berjatínsla


Ég fór á fróðlegan fyrirlestur um ræktun eplatrjáa.  Leif Blomqvist heitir fyrirlesarinn og rekur hann gróðrastöð norðarlega í Finnlandi og hefur sérhæft sig í eplatrjám, öðrum ávaxtatrjám og berjum.
Margt fróðlegt kom fram.  Hann nefndi nokkur yrki sem gætu passað okkur hér á Íslandi sem eru bæði harðgerð og bragðgóð. Til dæmis Tsaarin Kilpi, Valkealan Syys, Vit Nalif, Sockermiron, Astrakhan Gyllenkrok, Astrakhan Storklar (það er hægt að sá fyrir því), Borgovskoje, Esters Paronapple (líkist peru á bragðið) Gerby Astrakhan, Gerby Tidiga, Gyllene Kitajk, Pirja, Safstaholm, Salla, Suislepp, Veiniöun ( mjög súrt), Willnasananas (mjúkt undir tönn)
Eplatrén þurfa mjög góðan stað í garðinum.  Bestu staðina þurfa perur og plómur og svo eplin. 
Best er að klippa trén í ágúst samkvæmt Leif.  Þá koma ekki eins mikið af nýjum sprotum árið eftir. 
Fá yrki eru sjálffrjóvgandi og best er að hafa 3 yrki saman.  Þá er frjóvgun nokkuð örugg.
Eplin eru ágrædd og skiptir stofninn máli.  Hann hefur notað mikið Antonovka stofn sem er heilbrigður og harðgerður en fremur þróttmikill og verða trén stór.  Hann er núna að gera tilraun með stofn sem heitir B118 sem er hálf dvergtré.  Það er harðgerður stofn.  Gefur aldin fyrr en Antonovka.  Gæti hentað vel á Íslandi en hann er bara að byrja að prufa þennan stofn.
Leif býr á svæði sem er mjög kalt og því getur hann ekki klippt trén sín mikið ( meiri vöxtur nýrra sprota sem geta kalið og auðveldað sjúkdómum leið í tréð).  Við á Íslandi ættum að geta klippt meira og sýndist mér til dæmis Sæmundur á Hellu vera mjög óhræddur við klippingar.  Ungar plöntur er best að klippa að vori þegar aðeins er farið að hlýna. 


Af öðru.  Sólberjauppskeran er mjög góð.  Ég er búin að týna töluvert (hef ekki vigtað) og nóg er eftir.  Ég er búin að búa til berjapæ, sólberjadrykk og chutney, allt mjög gott. 


Lavender "Ellegance sky"  alveg við það að springa út. Ætlar að standa við það sem stóð á umbúðum að hann myndi blómstra á fyrsta ári

Epli og súrkirsi

Epli, komnar fallegar greinar

Dill, ótrúlega gott krydd

Fyrstu gulræturnar

Fennel, ég er búin að nota það í salöt. Mjög gott og mun ég örugglega rækta það aftur næsta sumar.

Monday, August 15, 2011

Óboðnir gestir í grænmetinu

Þegar líður að hausti og uppskerutíminn nálgast fara þjófarnir af stað að heimsækja Smálöndin.  Á hverju ári höfum við orðið fyrir þessum leiðindum.  Ég missti flesta laukana mína um helgina og eitthvað af kartöflum.  Ég er búin að frétta af mörgum öðrum sem hafa orðið fyrir tjóni.  Þetta er alltaf jafn svekkjandi. 

Af öðru og skemmtilegra. 

Þegar ég var yngri safnaði ég gjarnan jurtum sem ég notaði svo í jurtate.  Ég er byrjuð á þessu á nýjan leik og þurrka nú aðallega myntu úr garðinum en hún vex auðvitað eins og arfi. 

Svo bætti ég við 2 myndum af tómötunum en nú eru þeir tíndir á hverjum degi. 

Þurrkuð mynta

Tómatarnir eru mjög góðir og fallegir


Sólberin eru að þroskast núna og við erum búin að tína dálítið af þeim.  Ég er búin að búa til sólberjadrykk og berjapæ. 
Fórum líka í berjamó og tíndum um 1 og hálft kg af bláberjum og krækiberjum. 

Saturday, August 13, 2011

Uppskerutími

Nú er tími til að njóta, það er sumar og sól, gróðurinn hefur tekið vel við sér, berin eru að verða þroskuð.  Ég var að taka saman það sem við höfum verið að borða úr eigin garði hingað til. 
Kartöflur, rauðrófur, brokkolí, hnúðkál, ýmsar tegundir af salati og grænkáli, vorlaukur, jarðaber, sólber, kirsuberjatómatar, mynta, oregano, timian, basilika, kóríander... held ég sé ekki að gleyma neinu.

Nú er ég að bíða eftir matlauknum og baununum.  Fenníkan er að verða tilbúin, þarf bara að finna einhverjar skemmtilegar uppskriftir. 

baunirnar mínar blómstra

Sunday, August 7, 2011

Sumarfrí

Búin að vera á faraldsfæti í sumarfríinu.  Nú er líka kominn tími til að njóta uppskerunnar.  Vinnan fyrr í sumar er farin að borga sig margfalt til baka í gómsætum réttum.  Ekkert er betra en nýuppteknar kartöflur soðnar með smjöri. 

Arfinn vex eins og aldrei fyrr á þessum tíma en góð forvinna í vor hjálpar.  Svo er bara að halda í horfinu.

Kartöflugarðurinn okkar er  á kafi í arfa en núna eru grösin farin að hafa yfirhöndina.  Reyndar eru möndlukartöflugrösin ljót en mér skilst að þau séu bara þannig. 

Læt fylgja nokkrar myndir frá síðustu dögum

Laukarnir að verða hinir myndarlegustu

Fennikkan glæsileg

Baunagrasið búið að reisa sig við og raða sér á stuðningsvírana

Tómatarnir að roðna, hef borðað 1 eða 2 á dag. 

Fór í Smálöndin og afraksturinn  fór í þessa súpu.  Hún var góð.