Saturday, June 15, 2013

Seinkun á vorverkum

Var sein með öll vorverk þetta árið, ekki bara vegna kulda í maí heldur einnig vegna anna.  Ég forræktaði dill, tvenns konar Lavender,  fennel og oregano Keypti svo forræktað brokkolí (gekk illa að forrækta það í fyrra).  Ég sáði fyrir blaðsalati, spínati, rukkola.  Einnig fyrir rauðrófum, baunum, steinselju og meira dilli.  Setti niður 2 konar kartöflur, rauðar og gullauga.  Nú er allt komið niður á sinn stað sem betur fer.  

 Ég var ánægð með að aspasinn virðist hafa lifað af veturinn og glittir nú í nokkra sprota.




Sýnist þetta vera fennel.

Lavender






Sunday, March 17, 2013

Af græðlingum og öðru tilfallandi

Dagurinn í dag var fagur, sól og heiðríkja en ansi kalt.  Ég skellti mér samt útí garð og við hjónin settum upp nýjan vír sem mun styðja við næstu hæð á epla "espalier" .  Svo er að klippa toppinn af eplatrjánum rétt fyrir ofan vírin og venja tvær greinar útá við meðfram vírnum.  Smátt og smátt verður til lifandi limgerði úr eplatrjám ef ég fæ mínu framgengt en ekki pöddurnar sem hafa herjað á trén.  Síðasta sumar var það Laufrani.
Undir ljósi í bílskúrnum vaxa og dafna Lavender græðlingar "Ellegance sky". Ég á enn plöntur sem eru nú á öðrum vetri í garðinum mínum.  Þær eru í keri sem stendur við bilskúrinn. Mér sýnist fara að líða að því að það þurfi að prikla græðlingana.  Hin fræin sem ég keypti (Hidcote blue) eru enn ekki farin að spíra.
Ég umpottaði chiliplöntunum síðan í fyrra en ein er aftur farin að blómstra.
Appelsínutréð sem ég sáði fyrir í fyrra er ósköp druslulegt en ég umpottaði því og krossa fingur að það lifi.


Lavender

Chili planta farin að blómsta að nýju


Chiliskógur

Appelsínutré

Sunday, February 24, 2013

Vorverkin

Mér finnst veturinn varla hafa látið sjá sig þetta árið.  Allavega ekki enn sem komið er og þetta gerir það að verkum að vorverkin eru hafin hjá mér.  Vetrargosarnir eru komnir upp, alltaf jafn fallegir






Ég fór útí garð og byrjaði að klippa runnana mína.  Sólberin þarfnast ekki mikillar snyrtingar þetta árið en Svartyllirinn minn er svolítið að gera mig gráhærða.  Hann er of stór fyrir litla garðinn minn, vex allur út og suður, leggst niður við jörð og er þar allur í einni flækju.  Hann fékk harða útreið og er ég líka að hugsa um að færa hann til.
Ég er með 2 opna safnhauga í grindum og mokaði úr eldri haugnum sem er nú 2 ára og setti í hornið í garðinum.  Þar fær hann að rotna 1 ár í viðbót.  Þetta leit vel út og stór hluti var orðinn fallega svartur og lyktin þægileg rotnunarlykt.

Ég sáði fyrir tveim tegundum af Lavender, bæði Ellegance Sky sem ég hef áður sáð fyrir og lifir hjá mér í keri sem stendur uppvið húsvegg.  Svo sáði ég fyrir Hidcote Blue strain.  Það á að vera harðgerður runni sem blómstrar á öðru ári.



Ég mældi eplatrén mín og merkti þau með koparmerkimiða

Huvitus hafði vaxið 67 cm
Safstaholm 74 cm
Pirja 81 cm en hún brotnaði illilega sl vetur.


Basilikan er farin að skjóta upp kollinum.  Hún er inni í eldhúsi hjá mér, ég er farin að hlakka til að fá mér tómatasalat með mozzarella og basiliku.


Friday, February 15, 2013

Undirbúningur fyrir vorið

Nú er hafinn undirbúningur fyrir vorið og sumarið.  Ég velti fyrir mér hvaða tegundir mig langar að rækta og er búin að sá fyrir basiliku.
Ég ætla að rækta fullt af sléttblaða steinselju sem auðvelt er að frysta.  Einnig fullt af dilli sem ég fékk mikið dálæti á síðastliðið sumar.  Rauðrófurnar verða á sínum stað en ég veit ekki hvort ég muni sá fyrir gulrótum sem ekki hafa heppnast svo vel hjá mér á undanförnum árum.  Brokkolí ætla ég að rækta nóg af því það er ótrúlega gott bæði hrátt og léttsoðið með smjöri.  Kartöflur eru fastur liður en ég er mikil kartöfluæta.  Síðan er það salatið að sjálfsögðu og kannski einhver laukur.  Ég hef ræktað sykurbaunir undanfarin ár, þær eru mjög góðar en blómstra seint og hafa eyðilagst í frostum að hausti.  Kannski ætti ég að reyna að forrækta þær í ár.
Ég ætla að reyna að verða mér útum Lavenderfræ í ár, mig langar í fullt fullt af Lavender í garðinn hjá mér.
Ég fór í gegnum fræsafnið hjá mér, alltaf nóg til

sáði fyrir basiliku

Sáði beint í pottinn, gott er að setja venjulega mold og svo smá sáðmold efst .  Bleyta vel í.    Svo breiði ég dagblöð yfir pottinn á meðan spírun stendur.